2 min read

Það er enn mánuður eftir af sumrinu og fjölmargir eru á leið til sólarlanda til að sækja sólina og hitann sem hefur vantað hér á Íslandi í sumar. Það er bráðnauðsynlegt að hugsa sérstaklega vel um húðina á sumrin og verja hana gegn skaðlegum geislum sólarinnar. Flest notum við fyrst og fremst sólarvörn til þess að verja húðina, og stundum klæðnað líka, og mundu því að velja þér alltaf gæða sólarvörn og kynntu þér innihaldsefnin vel. Sólarvarnir innihalda oft mikið af rotvarnarefnum sem geta verið skaðleg fyrir húðina.

 
En það er líka mikilvægt að huga að matarrræði þegar kemur að því að hugsa vel um húðina. Veistu að þú getur líka varið húðina innan frá með réttu matarræði? Viss andoxunarefni í matvælum geta hjálpað til við að verja húðina gegn skemmdum og öldrun af völdum sólarinnar. 

Betakarótín sem finnst meðal annars í gulrótum (þá sérstaklega í hreinum gulrótarsafa) og í sætum kartöflum getur haft verndandi og heilandi áhrif á húðina, ekki bara til að vernda húðina gegn sólbruna heldur getur líka hjálpað húðinni að jafna sig eftir sólbruna. 
Líkópen sem finnst í tómötum og vatnsmelónum er annað öflugt andoxunarefni sem ver húðina gegn öldrun og sólarskemmdum. Líkópen er öðruvísi en flest önnur andoxunarefni að því leiti að líkaminn vinnur betur úr því ef að það er eldað. Auðvitað er ekki venjan að elda vatnsmelónur, en tómata er tilvalið að elda og setja til dæmis í súpur og sósur, baka í ofni eða grilla. Dökkt súkklaði (70% eða dekkra) inniheldur líka mikið magn af flavónítum sem einnig eru góðir til að verja húðina okkar. Það eykur blóðflæði og hjálpar húðinni að endurnýja sig. Goðaber (goji ber) eru ber sem eru líka sannkölluð súperfæða og talið er að þau geti varið okkur gegn krabbameini, sykursýki og háþrýstingi svo eitthvað sé nefnt. Rannsóknir hafa sýnt fram á að goðaber séu góð sólarvörn sem kemur innan frá og við neyslu þeirra minnka húðskemmdir af völdum sólarinnar. 

Á auðveldan hátt getum við bætt þessum áhrifamiklu og bragðgóðu andoxunarefnum og flavónítum við daglega mataræði okkar og þar með hjálpað húðinni að verjast slæmum áhrifum sólarinnar. Hér fyrir neðan er ég með æðislega uppskrift að salati með sætri kartöflu og sólþurrkuðum tómötum sem þú verður að prófa.