2 min read
Sumarfrí á suðrænum slóðum
Þegar ég skrifa þennan pistil til þín er ég að njóta sumarfrís á suðræðnum slóðum í Evrópu með kærastanum mínum.
Nú er rúmt ár síðan ég steig sjálf út úr þægindarammanum og lét vaða og fór á stefnumót með honum. Það var stórt skref fyrir mig, ég var búin að telja mér trú um að þetta væri nú ekki maður fyrir mig, ég væri ekki týpan sem færi bara strax á stefnumót með manni sem ég hafði kynnst á stefnumótaforriti daginn áður og allskyns aðrar hugsanir sem frumheilinn bauð mér uppá… en sem betur fer lét ég hann ekki ráða.
Eftir að hafa hlustað á allar þessar miður hvetjandi hugsanir í eigin kolli, dróg ég andann djúpt, slakaði á og sagði við sjálfa mig „Linda, þú ert stöðugt að hvetja konurnar sem eru í Prógramminu þínu að stíga út úr þægindarammanum, nú er kominn tími á að þú farir eftir eigin ráðum og gerir slíkt hið sama. Linda, live a little!” hugsaði ég, brosti út í annað, tók upp símann og svaraði honum og sagðist koma og hitta hann á morgun og hjartað sló örar.
Þetta var fyrir ári síðan, á suðrænum slóðum þar sem sólin skín, en ég kom þá hingað til þess að ég hélt, að skoða hverfi og hugsanlega hús til að búa í á veturnar en endaði á því að finna þess í stað yndislegan mann sem er kærastinn minn í dag. Þannig að við erum hér nú saman, rúmu ári síðar að halda uppá ástina okkar.
Það gerast nefnilega alls kyns hlutir þegar við prufum eitthvað nýtt. Það er leiðin til þess að vaxa og upplifa eitthvað nýtt. Og það sem mig langar að fá þig til að gera nú í ágúst er að „Live a little!” að skora á sjálfa þig, lifa lífinu lifandi, taka áhættu, stíga út fyrir þægindarammann og sjá svo hvað gerist.
Hlý kveðja,
Linda Pétursdóttir
Master lífsþjálfi.
B.A í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði.
Miss World 1988.
www.lindape.com