2 min read

Nú þegar kominn er vetur er ég mjög meðvituð um það hvernig ég hugsa um heilsuna mína. Veturinn fer ekki vel í mig þar sem ég er með frekar slæmt tilfelli af liðagigt og því þarf ég að hlúa sérstaklega vel að sjálfri mér. Kuldinn gerir mér ekki gott þannig að ég er að undirbúa að fara utan í sólina í nokkrar vikur til að fá D-vítamín í kroppinn og láta sólina heila líkama minn. Ég finn gríðarlega mikinn mun á líðan minni eftir veðri.
 
Að öðru leyti held ég svipaðri rútínu varðandi sjálfa mig og minn lífstíl en ég fer oftar í saunabað þegar kalt er úti og legg mikla áherslu á að taka inn gæða bætiefni. Í hreinskilni sagt er ég að skoða hvort ég get fært mig aftur um set. Það hentar mér best að eyða vetrinum fjarri Fróni en vera hér á sumrin.
 
Það skiptir gríðarlega miklu máli að hafa sterkt og heilbrigt ónæmiskerfi og við sem eru með sjálfsofnæmissjúkdóma þurfum að hlúa sérstaklega vel að okkur. Auðvitað finnst mér glatað að lifa með þennan sjúkdóm sem getur verið erfiður að eiga við. Ég verð bólgin og verkjuð og get ekki gert hluti sem ég tek annars sem sjálfsagðan hlut - eins og að halda á vatnsglasi eða fara út að ganga með hundana mína. 
 
Í júlí fékk ég versta gigtarkast sem ég hef fengið að sumri til og þurfti að liggja í sófanum í nokkra daga í hálfgerðu verkjarmóki þar til lyfin fóru að virka. Það tekur á og sem betur fer nýti ég lífsþjálfunarfræðin fyrir mig sjálfa. Ætli það hafi ekki hjálpað mér í gegnum þetta kast í sumar. En ég nota líka æðruleysið og minni mig á að streitast ekki á móti, heldur að upplifa og sætta mig við ástandið, vitandi að framundan geta verið bestu dagar lífs míns. Ég trúi því statt og stöðugt og svo er mikilvægt að hafa alltaf eitthvað á dagatalinu til að hlakka til, sem ég vissulega geri. Það var svo gaman nýverið að deila reynslu minni, þekkingu og góðum ráðum á Heilsuvikunni í LMLP (prógrammið Lífið með Lindu Pé). Komdu í LMLP og þú færð samstundis aðgang að Heilsuvikunni. 




Hlý kveðja,

Linda