2 min read

Hversu miklum tíma eyðir þú í að hugsa um framtíðina? Flestir eyða miklum tíma í að hugsa um fortíðina og núið. Hvað er ekki að virka vel og hvað er ekki eins og það ætti að vera og hvar okkur er að mistakast. Ef flestar hugsanir okkar eru að koma úr fortíðinni þá verðum við góðar í að endurtaka fortíðina. Það er talað um að um 90% hugsana okkar séu endurteknar hugsanir gærdagsins. Við hugsum á sjálfstýringu og veitum hugsunum okkar litla sem enga athygli. 

 

Ástæðan er sú að okkur hefur ekki verið kennt að við þurfum að yfirfara hugarfarið okkar reglulega. Við þurfum að uppfæra hugarfarið til að búa til nýjar niðurstöður í líf okkar. Sömu hugsanir búa alltaf til sömu niðurstöðu. Allt sem við fókusum á vex og dafnar. Þegar við fókusum alltaf á það sem er liðið og nú þegar í lífi okkar erum við eingöngu að viðhalda því. Við þurfum að læra að hugsa meira út frá framtíðinni til að skapa þá framtíð sem við viljum. En til þess að gera það þurfum við að byrja á að vita hvað við viljum. 

 

Ég er alltaf að hvetja konurnar mínar til að byrja að læra að þekkja drauma sína og þrár. Það er lykilinn að því að búa til það líf sem við viljum. Til að við förum að lifa vísvitandi og meðvitað þurfum við að vera með skýra sýn á hvað við viljum í líf okkar. Mín reynsla  er því miður sú að það er í örfáum tilfellum sem kona getur sagt án hiks hvað hún vill í lífinu. Þetta er æfing og krefst þess að við förum inn á við og lærum að þekkja sjálfar okkur.

Ég hvet ykkur til að byrja strax í dag ef þið tengið við að hafa ekki hugmynd um hvað þið viljið. Setjist niður með blað og penna og skrifið allt sem kemur upp í hugann þegar þið spyrjið ykkur hvað þið viljið. Ekki stoppa, haldið áfram að skrifa allt sem kemur upp í hugann. Ekki ritskoða, þetta er ykkar listi og þið megið láta ykkur dreyma um hvað sem er. Það er engin regla um hvað má í því.

Þetta getur átt eftir að reynast erfitt til að byrja með en eins og með allt annað kemur þetta með æfingunni. Þið þurfið að æfa ykkur í að vita hvað þið viljið. Opna hugann fyrir því og læra að þekkja ykkur betur. Þetta er frábær leið til að búa til gott samband við sjálfa sig.