2 min read

Matur frá Miðjarðarhafinu

Í LMLP prógramminu mínu mæli ég með því að konurnar mínar borði prótín, grænmeti og holla fitu - en þetta eru einmitt undirstöðuatriðin í svokölluðu Miðjarðarhafsmataræði, sem er þekkt fyrir að vera einstaklega heilsueflandi matarræði.

 

Miðjarðarhafsmataræðið inniheldur mörg mismunandi næringarefni sem vinna saman að því að hjálpa líkamanum. Það er engin ein matartegund sem ber ábyrgð á ávinningi Miðjarðarhafsmataræðisins, heldur er það samsetningin af ferskum og óunnum mat sem virðist gera gæfumuninn. Það gefur þér fullkomna blöndu af næringarefnum sem saman styðja við heilsuna þína. 

 

Hér eru nokkur dæmi um það hvers vegna Miðjarðarhafsmataræðið er svona gott fyrir þig: 

 

- Það fær þig til að borða holla, ómettaða fitu, þar á meðal omega-3 fitusýrur. Ómettuð fita stuðlar að heilbrigðu kólesterólmagni, styður heilbrigði heilans, vinnur gegn bólgum og stuðlar að heilbrigðu blóðsykursgildi.

 

- Það takmarkar unnin kolvetni, þar á meðal sykur. Matur sem inniheldur mikið af unnum kolvetnum getur valdið því að blóðsykurinn hækki. Unnin kolvetni gefa þér líka umfram hitaeiningar án næringar. 

 

- Það er ríkt af mat sem inniheldur mikið af trefjum og andoxunarefnum. Þessi næringarefni hjálpa til við að draga úr bólgum um allan líkamann. Trefjar efla meltingarkerfið. Andoxunarefni geta verndað þig gegn krabbameini með því að verjast sindurefnum í líkamanum. 

 

Hér eru dæmi um holla fæðu sem Miðjarðarhafsmataræðið innheldur: 

 

Prótínið kemur aðallega frá fiski, eggjum, baunum og hnetum. Kjöt er líka á boðstólum en í frekar litlu magni. 

 

Grænmeti er mjög mikilvægt. Stór og mikil salöt eru nánast staðlaður forréttur og ávextir mikið notað sem eftirréttir. 

 

Fita kemur oftast frá ólífunum í formi ólífuolíu, sem hefur sýnt fram á að geta bætt heilsuna, þá sérstaklega heila- og hjartastarfsemina. Fitan kemur líka frá fiski, eggjum og hnetunum. 

 

Það besta við Miðjarðarhafsmataræðið er að þetta er ákveðinn matarstíll en þar eru ekki settar stífar reglur. Þú getur sérsniðið matarræðið að því sem hentar þér og þér finnst gott á bragðið. Íbúar miðjarðarhafslandanna eru þekktir fyrir að kunna að njóta og það er ekkert sem segir að þú getir ekki fengið þér vínglas með matnum eða notið þess að fá þér eftirrétt annað slagið.