2 min read

Prótín er mikilvægt byggingarefni fyrir líkamann okkar því prótín endunýjar frumur og gerir við skemmdar frumur. Prótín er einnig hluti af mörgum hormónum, þar á meðal þeim sem stjórna og styðja við skjaldkirtilinn og meltingarkerfi okkar. Beinin okkar treysta á þetta næringarefni en auk D3 og K2 vítamíns og kalsíums, gegnir prótín því mikilvæga hlutverki að halda beinum okkar þéttum og kemur í veg fyrir beinþynningu - og minkar þarf af leiðandi líkurnar á beinbrotum. 

Beinheilsa er ekki eina ástæðan fyrir því að konur eigi að setja prótín í forgang í mataræðinu. Að borða nóg af prótíni er sérstaklega mikilvægt á breytingarskeiðinu - og eftir að við erum komnar í gegnum það - vegna þess að öldrunarferlið hefur tilhneigingu til að draga úr magni og gæðum vöðvamassa okkar. Þar af leiðandi er algengt að konur fari að missa vöðvastyrk með árunum fram að tíðahvörfum og þar á eftir.  

Mataræði sem inniheldur nægilegt magn af prótíni, ásamt reglulegri hreyfingu eins og að lyfta lóðum, vinnur að því að endurnýja vöðvana okkar. Því meiri vöðva sem konur hafa, því hraðari verður brennslan og efnaskiptin í líkamanum. Að borða nægilegt prótín á breytingarskeiðinu getur þannig hjálpað okkur að halda efnaskiptum líkamans gangandi og þannig hjálpað til við að koma í veg fyrir þyngdaraukningu.

Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að eftir 40 ára aldur getur vöðvamassi minnkað um allt að 1% á ári. Þannig að við 60 ára aldur - þegar konur eru komnar í gegnum breytingarskeiðið - geta þær misst allt að 20% af vöðvamassa sínum. Í dag er mælt með því að 50 ára gömul, 70 kg kona sem hreyfir sig ekki endilega mikið eða reglulega eigi samt að neyta um það bil 50-70gr af prótíni daglega til þess að koma í veg fyrir vöðvarýrnun. Margar klínískar rannsóknir hafa sýnt fram á að rétt magn af prótíni, sérstaklega við tíðahvörf, getur hjálpað til við að koma í veg fyrir óæskilegt vöðvatap og máttleysi.