2 min read

Hættum að afsaka okkur!

Ertu ein af þeim sem finnst þú alltaf þurfa að vera að afsaka þig? Afsaka að þú hafir verið sein, afsaka að þú hafir ekki klárað eitthvað, afsaka að þú hafir ekki hringt til baka, afsaka að þú hafir óvart tekið eitthvað í misgripum, afsaka að þú hafir sagt eitthvað eða gert eitthvað. 

Það er eitt að bera ábyrgð á lífi sínu og annað að finna alltaf þörf hjá sér til að afsaka sig. Það geta verið margar ástæður fyrir því að við gerum þetta og ein af þeim er sú að okkur var kennt að taka ekki of mikið pláss og láta lítið fyrir okkur fara. Þetta er menningarlegs eðlis og mikil áhersla var lögð á að stúlkur væru prúðar og stilltar. Það hefur svo þróast yfir í það að við erum orðnar fullorðnar konur sem afsökum tilveru okkar í hvert einasta skipti sem okkur finnst við hafa gert eitthvað þvert á það sem okkur var uppálagt. Þetta hefur orðið til þess að við minnkum lífið okkar. 

Ég er að kenna konunum mínum í Prógramminu að lifa lífinu eins og þær meini það. Ég vil sjá þær skína skært og geisla af sjálfsöryggi. Ég vil ekki að þær feli sig á bak við afsakanir og gefi öðrum valdið sitt. Við berum ábyrgð á lífinu okkar og þegar okkur verður á þá bregðumst við við því af sjálfsöryggi og sjálfsmildi. Við neitum að læðast í gegnum lífið okkar í þeirri von að við enginn taki eftir okkur. 

Ég vil hvetja þig, kæri lesandi, til að hætta að afsaka þig og stíga inn í sjálfsöryggið þitt. Þú ert hér til að blómstra og ekkert minna en það. Við höfum allar svo mikið fram að færa og heimurinn væri svo miklu betri ef við leyfðum okkur að skína.



Hlý kveðja,


Linda Pétursdóttir
Master lífsþjálfi.
B.A í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði. 
Miss World 1988.

www.lindape.com