1 min read

Aumt móðurhjarta

Í dag er stór dagur í lífi okkar mæðgna. 

Þegar þetta er skrifað erum við staddar saman í London en Ísabella mín er að hefja háskólanám hér. Ég hef í raun og veru kviðið þessum degi lengi. Nýr kafli er að hefjast. Ég hef verið að aðstoða hana síðustu daga að koma sér fyrir á heimavist hér og það er vissulega gaman að fylgjast með henni, spennuna og tilhlökkunina sem fylgir þessum nýja kafla í lífi hennar. Það er komið nýtt blik í augun á henni. Ég set mig í hennar spor og hugsa til þess tíma þegar ég var sjálf á tímamótum á hennar aldri, tilhlökkun og allt lífið fram undan.

Móðurhjartað er vissulega hálf aumt í dag en að sama skapi er ég stolt af stelpunni minni og hvernig uppeldi hún hefur fengið en ég ól hana upp sem einstæð móðir. Ísabella hefur sjálfstraust og getu til að flytja ein í nýtt land og hefja þar framhaldsnám í sagnfræði. Hún hefur ferðast til yfir tuttugu landa þannig að hún er veraldarvön, ábyrgðarfull og ég treysti henni.

Ég veit að ég mun upplifa allan tilfinningaskalann þegar ég kveð hana á eftir og held ein heimleiðis. 

En nú er komið að því að sleppa hendinni af henni og leyfa henni að fljúga úr hreiðrinu.