1 min read
Innsæið
„Þú finnur ekki frið með því að endurraða staðreyndum í lífi þínu, heldur með því að gera þér grein fyrir því hver þú ert á þínu dýpsta sviði“ - Eckhart Tolle
Ég man hvað það hafði djúp áhrif á mig þegar ég las þessi orð Eckhart Tolle og áttaði mig þá á því að ég þurfti að hætta að leita svara utan frá – þess í stað þurfti ég að leita inn á við.
Andleg heilsa hefur verið mér hugleikin lengi og ég hef lagt mig fram um að sinna henni. Eitt sinn var ég á hugleiðslunámskeiði í útlöndum þar sem ég fékk þrjár spurningar til að svara og mig langar að deila þeim með þér hér með von um að þær styðji þig á þínu andlega ferðalagi.
Hver vil ég vera? Hvaða gildi stend ég fyrir? Og hvernig get ég lifað í samræmi við þessi gildi?
Með tímanum hef ég lært að hlusta betur á innsæið en ég viðurkenni að ég hef ekki alltaf hlustað. Og þegar ég hef hunsað það hef ég fengið það í bakið.
Nýlega stóð ég frammi fyrir ákvörðun í fyrirtækinu mínu. Í stað þess að leita svara út á við ákvað ég að draga andann djúpt og bíða. Ég upplifði ónotalegar tilfinningar, ég beið og ég hlustaði á innsæið – og þá varð allt skýrara.
Andleg heilsa snýst ekki aðeins um hugleiðslu eða trú á æðri mátt, hún snýst ekki síður um að heiðra innsæið. Þegar ég hægi á mér, lækka í amstri hversdagsins, fer inn á við og hlusta á innsæið – þá kemur svarið.
Því hvet ég þig, kæri lesandi, til að lækka niður í amstri hversdagsins, hægja á þér og hlusta á innsæið.
Þar liggur svarið.
Skráðu þig og fáðu Magasínið með Lindu Pé sent ókeypis á netfangið þitt á sunnudögum. Linda deilir með þér uppáhalds efninu sínu tengdu lífstíl, heilsu, fegurð, ferðalögum o.fl