1 min read

Góðan daginn

Mér finnst mikilvægt að þora að ræða fegurð opinskátt og ákveða fyrir sig, hvað og hversu mikilvæg fegurð er fyrir viðkomandi. Mér finnst líka kominn tími til að við hættum að leyfa utanaðkomandi áhrifum að segja okkur hvað er fallegt og að við skilgreinum það heldur sjálf fyrir okkur.

Þú ákveður sjálf hvað þér finnst um þína fegurð. Þú ákveður hvað þú vilt leggja áherslu á. Þú getur valið að fagna því sem er einstakt, aðlaðandi og sérstakt við þig. Og eftir því sem þér finnst þú vera fallegri, því betur kemurðu fram við sjálfa þig. Kona sem álítur sig fallega færir heiminum fegurð.

Það er líka fínt að vera meðvituð um að hvort sem okkur líkar betur eða verr, erum við gjarnan dæmd eftir útlitinu og hvernig við komum fyrir. Fólk dregur ályktanir um okkur á fyrstu sjö sekúndunum. Útlit þitt sendir öðrum (og aðallega þér sjálfri) skilaboð um það hvaða skoðun þú hefur á sjálfri þér.

Þú getur streist á móti þessari staðreynd eða tekið henni fagnandi og fundið innblástur til að rækta þína fegurð. Það er ekki yfirborðskennt að huga að líkamlegri fegurð. Það er merki um að þú bæði virðir og elskir sjálfa þig. Og við þekkjum það held ég flestar að þegar við lítum vel út, þá einfaldlega líður okkur betur.

Hlý kveðja