3 min read
Við höfum eflaust flest sett okkur markmið sem við höfum ekki náð og látið það þýða að okkur muni aldrei takast það og að við séum ekki manneskjur sem náum markmiðum okkar. Og þegar við höfum þessa sögu um að við náum aldrei markmiðum okkar og margsönnum það í lífinu, erum við orðnar hræddar við að reyna einu sinni enn. Við viljum ekki upplifa vonleysið og vonbrigðin þannig að við hættum að reyna. Við sættum okkur við að ná aldrei þessu markmið og við leyfum draumnum okkar að sofna.
Vandamálið við draumana okkar er að þeir sofna aldrei alveg. Ef við höfum raunverulega löngun til að gera eitthvað þá lætur það okkur ekki í friði.Það er alveg sama hvað við reynum að hætta að hugsa um það, það kemur alltaf upp aftur og aftur.
En það er ekki nóg að „vona“ og „sjá til“ og „kannski“ fara á eftir draumum sínum því það er fyrirfram dæmt til að mistakast. Ekki vera fórnarlamb sem ætlar bara að vona og sjá til. Þú þarft að taka ákvörðun og fylgja henni eftir með gjörðum. Ekki nema þú viljir upplifa gærdaginn aftur og aftur. Þegar þú lætur fortíðina ákveða framtíð þína ertu aldrei að fara að skapa eitthvað nýtt og spennandi. Það er undir þér komið að gera eitthvað í markmiðum þínum. Taktu ákvörðun, hættu að fresta þér og draumum þínum. Ekki lifa í eftirsjá og vona að hlutirnir breytist. Það er enginn að fara að koma og bjarga þér - þú þarft að finna út úr því hvað fær hjarta þitt til að slá örlítið hraðar og leggja svo þitt af mörkum til þess að fylgja draumum þínum úr hlaði.
Og að lokum. Ímyndaðu þér að þú hafir sömu staðfestu og seiglu núna og þegarþú lærðir að ganga. Það var alveg sama hvað þú dast oft á rassinn, þú stóðst alltaf upp aftur og hélst áfram að reyna. Þú misstir aldrei trúnna og enginn í kringumþig heldur. En einhvers staðar á leiðinni í átt að fullorðinsárunum förum við að láta mistökin þýða að við getum ekki. Að eitthvað sé fullreynt. En það er samt aldrei fullreynt fyrr en við höfum náð þangað sem við ætlum. Ímyndaðu þér ef við hefðum hugsað svona þegar við lærðum að ganga. Þá væri engin gangandi manneskja á jörðinni í dag. Við þurfum að halda í trúnna allan tímann og þegar hún dvínar þá trúum við ennþá meira. Við getum nefnilega trúað því sem við viljum. Það eru engin lög sem segja að eftir ákveðið margar misheppnaðar tilraunir beri okkur að hætta að trúa að við getum eitthvað. Og nú er komið að þér. Hvað dreymir þig um? Skrifaðu það niður og finndu leiðir til að láta þann draum rætast.
Ég átti mér draum um að ferðast með Ísabellu mína, til Egyptalands, en rætur hennar liggja þangað. Þetta er eitthvað sem ég byrjaði að hugsa um og sjá fyrir mér þegar hún var lítil stúlka. Og ég leyfði mér að dreyma nógu mikið og síðan fylgdi ég hugsunum mínum eftir með gjörðum. Þessi ferð er nú að verða að veruleika en í næstu viku leggjum við mæðgur af stað í þessa draumaferð okkar (apríl 2023).
Magasínið með Lindu Pé kemur á netfang áskrifenda á sunnudögum. Áskrift er ókeypis, smelltu hér til að skrá þigsvo þú missir ekki af næsta Magasíni.