2 min read
Sjálfsagi er kröftugasta form sjálfsástar. Sjálfsagi er að stjórnast af þrá sinni og draumum en ekki af núverandi skapi. Sjálfsagi er að elska sjálfa sig nógu mikið til að gera hluti þrátt fyrir ónot af því maður veit að það á eftir að veita manni seinni tíma ávinning og árangur. Vellíðanin kemur eftir á.Þegar við viljum lifa í frjálsu flæði og berjumst gegn sjálfsaga eigum við alltaf eftir að velja nautnina í núinu í stað langtíma ávinnings sem fæst með því að velja seinni tíma nautnina. Og það má hljóma eins og frelsi í dag en það verður það ekki til lengdar. Fyrir mér er frelsið fólgið í því að æfa mig í að verða manneskja sem geri hlutina þegar ég hef ákveðið að gera þá út frá því sem ég tel að sé best fyrir mig í núinu- og líka best fyrir framtíðarsjálfið mitt. Ef við veljum alltaf nautnina og ánægjuna í núinu kemur af því að við upplifum okkur fastar og þurfum að takast á við afleiðingarnar.
Sjálfsagi er ekki eitthvað sem einhver fæðist með eða að einhver einn hafi meiri sjálfsaga en annar náttúrulega. Þetta er eiginleiki sem við byggjum upp og það gerum við ekki á einni nóttu. En ímyndaðu þér lífið þitt ef þú vaknaðir inn í daginn þinn með plan og ásetning um hvað þú ætlaðir að afreka þann daginn og þú gerðir alltaf það sem þú hefðir ætlað þér. Ímyndaðu þér frelsiðí að losna við allt innra samtalið þegar þú ert að telja þér trú um að þú getir gert þetta seinna eða að sannfæra þig um að þetta sé ekki góður tími og svo framvegis. Ímyndaðu þér ef þú gæfir ekki færi á svona samningaviðræðum. Þú bara vissir að það sem þú værir búin að ákveða væri svo gott sem framkvæmt. Af því að þú efaðist aldrei um að það sem þú planaðir yrði framkvæmt. Hugsaðu um frelsið sem myndi fylgja því.