2 min read

Í dag er mæðradagurinn og það fær mig til að hugsa um mikilvægasta hlutverkið í lífi mínu, en það er móðurhlutverkið. Mamma er sá titill sem mér þykir vænst um, besti titill sem ég hef hlotið í lífi mínu. Í raun finnst mér líf mitt fyrst hafa fengið alvöru tilgang þegar ég varð móðir. Það breytti öllu.

Ég elska að vera mamma og ég þekki ekki neitt annað en að vera einstæð móðir. Þegar Ísabella var lítil brosti ég oft út í annað þegar nokkrar vinkonur mínar, sem voru líka einstæðar mæður, kvörtuðu undan því að fá aldrei frí nema aðra hverja pabbahelgi. En í mínu lífi hafa aldrei verið pabbahelgar. Ég hef séð um uppeldið á dóttur minni ein, alveg frá upphafi. Ég vissi strax í upphafi að ég mundi ala hana upp ein og kaus strax að hugsa um þessa stöðu mína á annan hátt en vinkonur mínar. Ég hef aldrei litið á það sem ókost að ala hana upp ein. Fyrir vikið hef ég fengið miklu meiri tíma með henni og ég hef algjörlega tileinkað líf mitt henni. Það að vera einstæð móðir hefur aldrei hindrað mig í að lifa mínu besta lífi - og heldur ekki hindrað mig í að gefa Ísabellu það góða líf sem ég vil að hún lifi.

Ég hef frekar viljað sýna einkadóttur minni að allt er mögulegt og að kringumstæður í lífinu þurfa ekki að koma í veg fyrir að við getum lifað því lífi sem við viljum lifa. Ég hef lagt mig fram við að sýna henni að allt sé mögulegt. Og það er drifkrafturinn sem hefur keyrt mig áfram.

Þegar ég missti Baðhúsið dýpkaði skilningur minn á lífinu. Ég snéri þessari stóru hindrun upp í lausn til að sýna dóttur minni enn betur að maður getur alltaf risið á fætur og farið á eftir draumum sínum. Ísabella trúir því að hún geti gert allt sem hún vill og það er einmitt það sem ég vildi kenna henni og sýna. Við getum allt sem við ætlum okkur.

Stundum kíkir Ísabella inn á skrifstofu til mín þegar ég er að vinna og við spjöllum saman um það sem ég er að fást við. Hún á það til að segja við mig „Mamma, þú ert the boss!“ - og það er sko besta hrós sem ég fæ. Algjörlega toppurinn á tilverunni!

Njótið dagsins elsku mæður!