2 min read

Samband mitt við peninga hefur oftast verið nokkuð gott en þegar ég var ein heima með lítið barn og ekki í vinnu upplifði ég mikinn afkomuótta. Ég hafði miklar áhyggjur af því að eiga ekki fyrir nauðsynjum fyrir okkur mæðgur. Ég vildi að ég hefði kunnað fræði lífsþjálfunnar á þeim tíma því það hefði breytt svo miklu
 
Stærsta fjármálalexían var án efa að fara í gegnum gjaldþrotið mitt - en svo er ég auðvitað með hagfræðimenntun sem hefur kennt mér mikið. En það er óhætt að segja að með reynslunni lærði ég mest. Samband mitt við peninga hefur gjörbreyst eftir þessa lífsreynslu og það hefur aldrei verið betra. Því á ég fyrst og fremst að þakka vinnunni sem ég hef gert á sjálfri mér og sjálfsmynd minni. Því við sköpum aldrei meira en sjálfsmynd okkar segir til um.

Það virðist vera að við - sérstaklega konur - séum alin upp við að það sé ekki göfugt að ræða um peninga. Ríkt fólk sé gráðugt og það má ekki „monta” sig af peningum eða „sýnast”. 
Ég er algjörlega ósammála því og mér finnst mikilvægt að tala um peninga. Við þurfum sterkar konur sem fyrirmyndir, konur sem þora að tala um peninga. Við þurfum að kenna dætrum okkar að tala um peninga og að taka meðvitaða ákvörðun um tekjur og lífsstíl. Peningar eru ekki svarið við öllu en þeir geta auðveldað lífið og þú getur látið gott af þér leiða. Ég trúi því að peningar geri þig bara meira af því sem þú ert nú þegar - hvort sem þú ert góð eða slæm manneskja.
 
Ef þú spyrð sjálfa þig hvað þér finnst um peninga, kemur ýmislegt í ljós. Hvað var þér til dæmis kennt um peninga í uppvextinum? Svörin afhjúpa sjálfsmyndina sem byggir á þessum hugsunum og skoðunum. Kannski er kominn tími fyrir þig að átta þig á hvaða hugsanir halda aftur af þér og koma í veg fyrir að þú búir til eitthvað nýtt. 

Hlý kveðja,

Linda

 

Smella hér til að skrá mig í ókeypis áskrift af magasíninu Lífið með Lindu Pé. 

Smella hér til að skrá mig í prógrammið Lífið með Lindu Pé.