2 min read

Í hraða nútímans, þar sem stress og streita er að verða verulegt vandamál er ótrúlega mikilvægt að setjast í bílstjórasætið í bílnum sínum og taka stjórn í eigin lífi. Lífið fer aldrei með okkur hraðar en við leyfum. Ef við sættum okkur við að þeytast um og vera uppfullar af stressi þá er það það sem við fáum.

 

Ég kenni að heilinn finnur alltaf sjálfsmynd sína og lífið okkar endurspeglar það hvernig við sjáum okkur. Ef við sjáum okkur sem konur sem erum alltaf á fullu og finnum jafnvel fyrir stolti eftir því sem við gerum meira þá á það eftir að reynast okkur erfitt að hægja á okkur. Einfaldlega vegna þess að það samræmist ekki þeirri konu sem við erum. Við upplifum alltaf ónot þegar hegðun okkar samræmist ekki sjálfsmynd okkar. Þannig á það eftir að búa til ónot hjá konunni sem er alltaf á fullu með hundrað bolta á lofti í einu, þegar hún ætlar að fara að slaka á, hugleiða og fara í rólegar göngur í náttúrunni. Heilinn einfaldlega streitist á móti þessum athöfnum. 

Við verðum að byrja á að uppfæra sjálfsmyndina til að nýja hegðunin geti orðið partur af venjum og rútínum til langframa. Við þurfum að byrja að sjá okkur sem konur sem slökum á, til að geta slakað á. Þannig virkar þetta heillin mín. 

Þegar við uppfærum sjálfsmyndina þá erum við í raun að breyta sögunni sem við höfum um okkur sjálfar. Og það er í boði að gera það hvenær sem er. Við fáum að trúa því sem við viljum! Það er eitt af því kröftugasta sem lífsþjálfun kennir okkur. Við getum látið af þeirri trú að við þurfum alltaf að vera á fullu. Hvað ef við myndum allar ákveða að sjá okkur sem konur sem kunnum að slaka á á sama tíma og við njótum þess að framkvæma þá hluti sem við viljum, en ekki út frá stressi og yfirþyrmingu. Prófið að máta nýja sjálfsmynd og athugið hvort ykkur líkar ekki bara ágætlega við hana. Og svo farið þið í gegnum daginn ykkar með því að minna ykkur á hverjar þið eruð að verða í stað þess hverjar þið hafið verið.