2 min read

Seigla að árangri

Efst í huga mér þegar ég skrifa þessa dagbók er þakklæti til þeirra sem komu á markmiðanámskeiðið sem ég var með í síðustu viku og ég býð allar þær fjöldamörgu konur sem tóku ákvörðun um að skrá sig í Prógrammið með Lindu Pé og gera þetta að sínu besta ári, svo innilega velkomnar.

Seigla er einn af þeim eiginleikum sem ég trúi að fólk þurfi að byggja upp til að ná árangri í lífinu. Fyrir mér þýðir seigla ekkert annað en að halda alltaf áfram sama hvað. Að leyfa hindrunum ekki að stoppa sig. Þegar ég hugsa um lífið mitt þá get ég séð hvernig ég hef byggt upp seiglu í gegnum árin og hvernig sú seigla hefur svo komið mér í gegnum þau verkefni sem hafa verið mín mesta hindrun. Ég hef alltaf neitað að gefast upp. 


Það eru ekki góðu og auðveldu hlutirnir í lífinu mínu sem hafa byggt upp seiglu. Það er reyndar algjörlega andstæðan við það. Seiglan hefur aukist við hverja hindrun sem ég hef yfirstígið og krafturinn sem kemur með seiglunni er það sem hefur alltaf komið mér áfram. Ég lít svo á að verkefnin sem við fáum í lífinu séu ætluð okkur og þegar ég lít til baka á mitt líf get ég séð hvernig það er rétt fyrir mig. Eitt af því besta sem ég hef tileinkað mér er að spyrja mig alltaf að því í miðri hindrun hvernig hún sé þarna fyrir mig. Hvað er ég að læra og hvernig verð ég uppfærð útgáfa af sjálfri mér þegar ég hef yfirstigið þessa hindrun? Þetta getur verið erfitt að gera á erfiðum tímum en þá geri ég það alltaf eftir á. Af því að það er aldrei svo að það standi ekki eftir einhver þroski og lærdómur við hverja hindrun. 


Ef við tileinkum okkur að fara í gegnum lífið með því hugarfari að lífið hafi sínar andstæður og öll verkefni sem við fáum séu hér til að kenna okkur og þroska þá látum við af miklum þjáningum sem við annars upplifum. Rifrildi við raunveruleikann er alltaf það rifrildi sem við töpum og því er best að taka því sem er og gera það besta úr því. Halda alltaf áfram og læra af því sem er í boði úr þeim aðstæðum sem eru núna og vita að allt hefur sinn tíma. Þannig byggjum við upp seiglu, með því að gefast ekki upp, halda áfram og vera alltaf tilbúnar að draga lærdóm af því sem er hér og nú.