2 min read

Það sem ég er að hugsa

Þessi fyrsti mánuður ársins hefur verið vægast sagt annasamur hjá mér. Mikill fjöldi kvenna skráði sig í LMLP prógrammið mitt - miklu fleiri en ég hafði sett mér sem markmið - og ég er svo innilega þakklát fyrir að fá að vinna með öllum þessum flottu konum næstu mánuðina - þær hafa aldrei verið jafn margar í prógramminu hjá mér. Nú eru þær búnar að setja sér markmið fyrir árið fram undan og tilbúnar að byrja að vinna að þeim. Að setja sér markmið er svo skemmtileg vinna, eins og ég hef kannski nefnt nokkrum sinnum, og hvetjandi. Ég fyllist krafti og sjálfsöryggi þegar ég hef sett mér markmið og veit hvert ég er að stefna.

En þegar markmiðin eru komin niður á blað er komið að því að framkvæma. Markmið og draumar verða jú ekki að veruleika nema þú framkvæmir. Skrefin að markmiðinu geta verið mörg og hversdagsleikinn því stundum virkað yfirþyrmandi. Þess vegna er mikilvægt að skipta stóra markmiðinu niður í minni og viðráðanleg skref og - það sem er allra mikilvægast - að efla og byggja upp sjálfsaga. Lykillinn að því að ná árangri er nefnilega sjálfsagi.

Sjálfsagi hefur ekki endilega góða merkingu í hugum fólks. Mörgum finnst það hljóma leiðinlega að láta sjálfsaga móta lífið. En í sjálfsaganum felst frelsið, eins undarlega og það kann að hljóma. Með sjálfsaga stjórnum við okkur sjálfum, setjum reglur og förum eftir þeim. Þegar þú beitir þig sjálfsaga, ferðu gegn hvötum frumheilans sem vill að þú sækir í nautn og ánægju. Frumheilinn vill ekki gera breytingar og hugsar aðeins skammt fram í tímann.

Góðu fréttirnar eru að allir - já allir - geta byggt upp sjálfsaga. Býrð þú yfir sjálfsaga?Hverju trúir þú um sjálfsaga? Þú gætir þurft að uppfæra hugsanir þínar. Kannski trúir þú núna að þú hafir alls engan sjálfsaga og ólíklegt að þú getir tileinkað þér hann. En fortíðin okkar segir ekkert til um hvað við getum gert í framtíðinni. Þetta er þitt val - þú ákveður hvernig þú vilt vera. Viltu búa yfir sjálfsaga og öryggi? Ég hvet þig til að opna huga þinn fyrir því hvernig þú getur breytt lífi þínu með sjálfsaga að leiðarljósi.   

 

Ath. Nú er lokað fyrir skráningar í LMLP en þú getur skráð þig strax á biðlista og við látum þig vita næst þegar opnar. Taktu ákvörðun og gerðu þetta fyrir sjálfa þig. Þú munt ekki sjá eftir því.Smella hér fyrir biðlista.