2 min read

Mér finnst nauðsynlegt að leyfa mér lúxus í lífi mínu. Lúxus er ákveðið viðhorf til lífsins og þarf alls ekki að þýða það sama og mikil eyðsla. Lúxus snýst um að draga fram það fallega í umhverfinu eða gera það sem þú nýtur að gera. 
 
Minn lúxus birtist á ýmsan hátt. Ég hef afskorin blóm í vasa og ferska blöndu af ilmkjarnaolíum í lampa á daginn. Á kvöldin, þegar dimma tekur, kveiki ég á fallegu kerti. Handklæði og rúmföt í góðum gæðum skipta mig líka miklu máli og núorðið sef ég alltaf á silkikoddaveri. 
 
Krem, förðunarvörur og húðmeðferðir sem ég nota eru nær eingöngu lúxusvörur því mér finnst ég einfaldlega eiga skilið að kaupa mér þær vörur sem mig langar í - og ég geri það óhikandi. Það er lúxus að eiga fullan ísskáp af næringarríkum mat og nýr lúxus á heimilinu er vélmennaryksuga sem ég fjárfesti í nýverið og er nýja uppáhalds tækið mitt! 
 
Ég vil hafa fallegt og snyrtilegt í kringum mig og vinkonur mínar grínast stundum með það að ég hafi örugglega verið drottning í miðausturlöndum í einhverju fyrra lífi, því ég elska glamúr, gull og lúxus. Það kæmi mér reyndar ekkert á óvart ef svo hefði verið!
 
Mesti lúxusinn minn er reyndar að kunna að stjórna hugsunum mínum, eins og ég kenni í LMLP, og auðvitað er það algjör lúxus að fá að vinna við það sem gefur mér svona mikið.
 
Það er í lagi að leyfa sér lúxus í lífinu - og það þarf ekki að kosta mikið. Farðu út og týndu falleg blóm í vasa, kveiktu á ilmkerti, hafðu snyrtilegt heima hjá þér, veldu hollari mat og lífrænan næst þegar þú kaupir inn. Farðu í heitt bað, settu ilmkjarnaolíu út í, kveiktu á kerti og hlustaðu á uppáhalds tónlistina þína. Það er algjör lúxus! 

Hlý kveðja,

Linda

 

Smella hér til að skrá mig í ókeypis áskrift af magasíninu Lífið með Lindu Pé. 

Smella hér til að skrá mig í prógrammið Lífið með Lindu Pé.