2 min read

Í LMLP vinn ég fyrst og fremst með lífsþjálfun sem eru fræði sem hjálpa þér að sjá og skilja hugsanir þínar og finna orsökina á bak við þann stað sem þú ert stödd í lífinu. Það er grunnurinn að því að gera breytingar á lífi okkar. Við festumst svo oft í eigin hugsunum sem við teljum vera staðreyndir en eru það ekki. Hugsanir sem við hugsum aftur og aftur verða að vana. Það er mikilvægt fyrir þig að átta þig á mætti eigin hugsana og hvernig þær hafa áhrif á líf þitt. Hvernig getur þú skapað þér betra líf með því að breyta viðhorfum þínum til sjálfrar þín?

Við flækjum gjarnan hlutina og gerum þá erfiðari en þeir eru. Konurnar mínar hafa sagt mér að þeim finnist þær ekki geta trúað á sjálfa sig. En þú hefur valdið til að trúa hverju sem þú vilt trúa. Hverju trúir þú? Veltir þú þér upp úr eymd og volæði? Ertu í skóm fórnarlambsins? Þú fékkst þetta líf að gjöf og þess vegna er kjarni tilveru þinnar nú þegar verðugur. Það er engin ástæða fyrir því að þú ættir að efast um sjálfan þig. Við fæðumst öll fullkomin og við erum öll fullkomin nákvæmlega eins og við erum.

Þegar hugsanir skjóta upp kollinum sem segja að þú ættir að vera betri en þú ert vil ég endilega að þú skoðir hugsunina sem liggur að baki. Þetta er bara hugurinn þinn sem er að búa til setningar. Vertu forvitin og heiðarleg við sjálfa þig. Hverju trúir þú um getu þína í framtíðinni? Síðan þarftu að byrja að trúa á það sem þú telur að sé mögulegt fyrir þig.

Lykillinn að leyndardómi alheimsins er að geta skoðað hugsanir sínar og greint á milli þess sem þú trúir og þess sem þú telur að sé mögulegt. Hverju kýstu að trúa um sjálfa þig?