2 min read

Ekki krassa eða klessa á vegg

Yfirþyrming, stress og streita er eitthvað sem er orðið norm hjá meirihluta fólks. Kröfurnar sem við setjum á okkur virðast alltaf vera að aukast. Auknir möguleikar sem áttu að auka lífsgæði okkar hafa að mörgu leyti snúist upp í andhverfu sína. Við náum ekki fókus og finnst við þurfa að vera að gera allt á sama tíma.

Ég man eftir því að hafa verið að spjalla við ungan dreng um framtíðina hans og ég sagði honum að mér fyndist svo frábært hvað það væru miklir möguleikar fyrir ungt fólk í dag. Hann sagði mér þá að hann sæi þetta akkúrat á hinn veginn. Hann upplifði að allir þessir möguleikar fylltu hann yfirþyrmingu, pressu og stressi. Hann gat ekki með nokkru móti ákveðið hvað hann ætti að gera og yfirþyrmingin gerði það að verkum að honum féllust hendur og gerði ekki neitt. Þetta er akkúrat það sem gerist þegar við leyfum yfirþyrmingu að yfirtaka allt. Þegar við segjum okkur að þetta sé allt of mikið, að við höfum svo mikið að gera og við komumst aldrei yfir allt. Okkur fallast hendur og komum færri hlutum í verk en ef við ynnum að því að halda ró okkar. 


Ég verð mjög vör við þetta í þeirri vinnu sem ég er að vinna. Konurnar mínar í LMLP prógramminu hafa margar hverjar krassað eða klesst á vegg eins og þær orða það, út af of mikilli streitu og yfirþyrmingu yfir of langt tímabil. Í lífsþjálfun kennum við að allar tilfinningar koma út frá hugsunum okkar. Tilfinningarnar stress og yfirþyrming eru engin undantekning á þeirri reglu. Við upplifum þessar tilfinningar út frá hugsunum okkar um hvað það sé mikið að gera á litlum tíma. Þessar tilfinningar eru mjög algengar þegar við erum mikið að einblína á verkefni framtíðarinnar í stað þess að vera í núinu og minna okkur á að við þurfum bara að vera hér og nú. Núið er það eina sem er til núna. 

 

Að læra að stjórna huga sínum er lykillinn okkar að innri ró og yfirvegun.Eins og með allt sem ég kenni þá eru það ekki aðstæður okkar sem framkalla tilfinningar okkar.Heldur það sem við förum að segja okkur um aðstæðurnar. Við þurfum að breyta sögunni sem við höfum til að slaka á.

Hvað myndi breytast ef við létum af stressinu og streitunni og slökuðum á? Hvað þyrftum við að hugsa?