2 min read

Áttaviti framtíðarsjálfsins!

Í upphafi árs er nauðsynlegt að setja sér ásetning fyrir árið. Orð ársins, markmið og skilgreining framtíðarsjálfs eru allt gríðarlega kröftug nálgun sem byggir á þeim ásetningi sem við höfum sett okkur. 


Allt byggir þetta á krafti þess að skipuleggja fram í tímann og nota framheilann, mennska part heilans, til að búa til það líf sem við viljum lifa. Ef við höfum ekki meðvitaðan ásetning kemur heilinn á okkur til með að halda okkur í viðjum vanans á sjálfstýringu. Við endutökum gærdaginn og bætum aldrei neinu nýju við. 

 

Þegar við erum að ákveða ásetning okkar fyrir árið er fyrsta skrefið alltaf að líta yfir lífið okkar og átta okkur á hvar við myndum vilja gera einhverjar umbætur. Gott getur verið að gefa lífinu sínu einkunn frá 0-10 og út frá þeirri tölu sem maður gefur lífinu að átta sig á hvaðan sú tala kemur. Hvaðan kemur það mat. Þannig verður til meðvitund um upplifun okkar af núverandi lífi. Því næst er gott að spyrja sig hvernig lífið myndi líta öðruvísi út ef því væri gefið 10 í einkunn. Hvað væri öðruvísi? Þannig fæst mynd á það hvað þyrfti að breytast til að lifa draumalífinu. Út frá þessu er svo hægt að ákveða ásetninginn. 

 

Út frá ásetningnum er svo hægt að setja markmið sem er sett upp skriflega, gert mælanlegt og dagsett. Allir ættu alltaf að vera með markmið til að vera alltaf með skýra mynd af því hverju er verið að vinna að. Ef við ekki gerum það fyllir hugur okkur af dramatík og ónauðsynlegum vandamálum sem við höfum ekkert með að gera.

Orð ársins er eitthvað sem ég nota ekki síður en markmið. Það er eitthvað sem þú vilt heiðra það árið og æfa þig að stíga inn í. Það er meira eins og orkan sem þú ætlar að vera í. Það má segja að orð ársins og markmiðið vinni saman. Þú getur fundið út úr því hvaða orð ársins myndi henta út frá því markmiði sem þú ert með. Til dæmis ef markmiðið er að stíga á svið og syngja opinberlega gæti orð ársins verið sjálfsöryggi. Þú ætlar að heiðra sjálfsöryggi og æfa þig í að vera sjálfsörugg kona.

Ef markmiðið er þyngdartap gæti orð ársins verið heilbrigði eða staðfesta. Ef markmiðið er að hugsa betur um útlitið gæti orð ársins verið glæsileiki eða eitthvað þess háttar. Þetta er bara til að gefa ykkur dæmi en leyfið ykkur að hugsa þetta algjörlega út frá ykkur sjálfum. Orð ársins er í raun ásetningur um hverjar við viljum og þurfum að vera til að ná markmiðum okkar. 

 

→ Smelltu hér til að hlustaá podcastþáttinn „Markmiðasetning og orð ársins"