1 min read

Gleðilegt ár kæri lesandi og takk fyrir samfylgdina. Í upphafi árs finnst mér alltaf svo gott að fara yfir nýliðið ár og meta það. Með forvitni og aðdáun. Ég sest í sæti vísindamanns sem skoðar gögnin sín. Ég nota sjálfsmildi og opna á lærdómshugarfarið. Það skiptir öllu að við vitum að við séum öruggar þegar við opnum á mistök eða eitthvað sem við hefðum viljað gera öðruvísi. Um leið og við leyfum sjálfsniðurrif höfum við gert það ómögulegt að læra af fortíðinni. Hver vill horfast í augu við eitthvað sem hefði mátt fara betur ef því fylgja harkalegar refsingar frá okkur sjálfum?


Þegar kemur að því að skoða fortíðina er nauðsynlegt að gefa sér rými til að opna á allt og treysta sér til að sýna sér skilning og kærleik á meðan. Það er nefnilega einu sinni svo að allar okkar minningar bera með sér mikla visku ef við ekki hlöðum þær með neikvæðum tilfinningum. Ef við erum eingöngu tilbúnar að meta það sem gekk vel og ekki það sem hefði betur mátt fara þá bætum við ekki neitt.Sá sem leyfir mistökum sínum að vera tækifæri til að læra og vaxa kemur alltaf til með að bæta við líf sitt. 
 

Ég vil hvetja þig, kæri lesandi, til að gefa þér tíma í þessa vinnu.Skrifaðu niður hvað þú ert ánægð með og þeim afrekum sem þú ert stolt af. Ég hvet þig alltaf til að tileinka þér að fagna þér og árangri þínum. En þann dag sem þú lærir að leyfa þér að draga lærdóm af mistökum og því sem betur hefði mátt fara byrjar lífið þitt að fara á flug.