2 min read

Þegar ég er spurð hvernig ég fari að því að komast yfir svona margt á stuttum tíma er stutta svarið þetta: Ég er mjög skipulögð og skuldbind mig til að fylgja áætlunum mínum eftir. Þar hefurðu stóra leyndarmálið! Ég tamdi mér að vera skipulögð frá unglingsaldri, eflaust vegna þess að mamma er skipulögð og heimili mitt var alltaf hreint og fínt. 

Mér finnst gaman að skipuleggja og hafa hluti í röð og reglu. Ég er mikil rútínumanneskja og er þessi svokallaða A-týpa. Mér finnst best að hafa fasta kvöld- og morgunrútínu og heimili mitt er snyrtilegt og fínt og það sést vel, enda erum við mæðgur alveg samstíga í þessum lífsstíl.

Ég hef alltaf verið skipulögð í vinnu og tileinkaði mér að vera framsækin - eða pro-active - og ég skipulegg vinnu mína marga mánuði fram í tímann. Ég hef líka orðið agaðri og skipulagðari með lífsþjálfunarmenntun minni, því þar er mikil áhersla lögð á að vera skipulagður og vinna alltaf út frá draumum okkar og markmiðum.
 
Allir geta skipulagt líf sitt. Þetta snýst fyrst og fremst um hugsanir þínar og það samtal sem þú átt við sjálfa þig. Ef þú segir að þú sért óskipulögð og alltaf með allt á síðustu stundu, beinir þú athygli þinni að þeirri hugsun - og viti menn - niðurstaðan í lífi þínu mun bera þess glöggt merki. Hugsanir þínar framkalla tilfinningar þínar, sem síðan stjórna gjörðum þínum. Góðu fréttirnar eru að þú getur breytt hugsunum þínum - þú hefur alltaf val. 
 

Sumir halda því fram að það að skipuleggja sig sé svo leiðinlegt og óþægilegt. Vilja heldur vera frjálsir og fylgja flæðinu. En þessu er einmitt þveröfugt farið. Þegar þú ert skipulögð fylgir því einmitt svo mikið frelsi! Þegar þú ákveður og skipuleggur hvernig þú verð tíma þínum, getur þú unnið markvisst að því að láta drauma þína rætast og lifað því lífi sem þú vilt lifa. Þvílíkt frelsi!  

 

Hlý kveðja,

Linda

 

Smella hér til að skrá mig í ókeypis áskrift af magasíninu Lífið með Lindu Pé. 

Smella hér til að skrá mig í prógrammið Lífið með Lindu Pé.