2 min read
Öflugt samfélag kvenna
Í LMLP prógramminu hefur orðið til dásamlegt samfélag kvenna sem styðja hvor aðra og samgleðjast yfir bæði stórum og smáum sigrum. Þar ríkir kærleikur og mildi. Ég er svo stolt af því hvernig þetta samfélag hefur þróast síðan ég byrjaði með LMLP prógrammið. Það er svo gefandi að taka þátt í svona samfélagi og mikil hvatning fyrir allar þær konur sem eru að vinna að markmiðum sínum. Þetta er það sem gerir LMLP konurnar svona öflugar:
LMLP konurnar læra að beina hugsunum sínum á nýjar brautir. Þær æfa sig í að lifa út frá framtíðinni, ekki fortíðinni. LMLP konan veit hver hún vill vera og æfir sig síðan í að hugsa og gera eins og hún og laðar drauma sína að sér í kjölfarið. LMLP kona ber virðingu fyrir sjálfri sér og öðrum og heimurinn endurspeglar það. Kona sem ber virðingu fyrir sér fær virðingu frá öðrum.
LMLP konan stundar ekki samanburð. Hún fagnar öðrum. Við notum aldrei aðra konu, aðra manneskju, til að líða illa með okkur sjálfar. Hver einasta kona er einstök, verðug og klár. Sérhver hugsun sem segir þér annað er lygi sem reynir að halda þér þar sem þú ert. Við snúum samanburði yfir í innblástur, því það er ekki hægt að laða að sér það sem maður hafnar. Við fögnum því sem aðrar hafa gert og leyfum því að flæða inn í okkar líf.
LMLP kona þarf ekki viðgerð, það þarf ekki að laga hana. Hún hannar lífið sitt. Ekki út frá því að hún sé gölluð núna, heldur af því að það er svo gaman. Lífið verður einfaldlega skemmtilegra þegar við erum að vaxa og þroskast. LMLP kona fagnar áskorunum. Hún notar þær til að læra meira um sig sjálfa og býr til plan sem undirbýr hana undir frekari áskoranir. Hún veit að það eru áskoranirnar í lífinu sem þroska hana mest. Það er ekkert mál að vera besta útgáfan af sjálfri sér þegar allt gengur sinn vanagang - en þegar á reynir fáum við tækifæri til að sýna hvað raunverulega í okkur býr. Öllum áskorunum fylgja vaxtarmöguleikar ef við hlaupum ekki í burtu.
Það skemmtilega við sjálfsvinnuna er að hún er aldrei búin. Við erum verk í vinnslu og það er alltaf eitthvað skemmtilegt til að æfa. Nýr draumur eða nýtt markmið. Þannig er samfélag LMLP kvenna staður þar sem eru endalausir möguleikar til að þroskast og vaxa og búa til innihaldsríkt og skemmtilegt líf. Saman erum við einfaldlega sterkari!