2 min read
Hugsanir okkar koma frá heilanum í okkur sem hefur frá fæðingu safnað upplýsingum úr umhverfinu sem gefur okkur ákveðna mynd af því hvernig heimurinn á að virka. Við höfum myndað okkur skoðanir og trú í gegnum tíðina,um hvað er rétt og satt og hvað ber að óttast. Við höfum gagnasafn í undirmeðvitund heilans þar sem við geymum þessar skoðanir og trú um hvernig lífið okkar á að vera til að við getum verið óhultar og lifað af. Af því að það er það eina sem heilanum er umhugað um.
Við þurfum alltaf að muna að heilinn vill að við spörum orkuna okkar, forðumst ónot og hættur og sækjum í nautn. Og í þessari tilraun heilans til að halda okkur á lífi sér hann til þess að við reynum að lifa lífinu samkvæmt þessum skoðunum okkar og trú um hvað er rétt, hvernig við eigum að hegða okkur til að teljast gott fólk, hvernig aðrir eiga að hegða sér til að teljast gott fólk og hvernig heimurinn á að vera til að teljast góður. Og svo skynjar heiminn allt sem ekki samræmist þessari mynd sem vandamál sem þarf að leysa.
Þess vegna má segja að við förum í gegnum lífið í þeirri viðleitni að reyna að lifa lífi eftir því handriti sem við erum með í undirmeðvitundinni. Þetta er það sem við köllum handbókina okkar um hvernig við og aðrir eiga að haga sér svo að okkur líði vel. Við erum líka með þessa handbók um hvernig heimurinn og umhverfið okkar þarf að vera til að okkur líði vel. Við erum með mjög ákveðna mynd af því í huga okkar hvernig okkur finnst að lífið ætti að vera og í hvert einasta skipti sem eitthvað gerist sem samræmist því ekki þá upplifum við ónotalegar tilfinningar.
Og af því að heilinn vill ekki að við upplifum ónot, þá förum við að reyna að stjórna öllum og öllu til að allt fari samkvæmt plani af ótta við að upplifa ónot. Við göngum ótrúlega langt til að upplifa ekki ónotalegar tilfinningar.
Og hver er svo lausnin við þessu? Við þurfum að vera tilbúnar að láta af stjórn. Okkur er ekki ætlað að stjórna öllum heiminum til að líða vel. Við getum bara ákveðið að slaka á leyfa röddinni í huga okkar að lækka. Þetta krefst þess að við æfum okkur í að átta okkur á skoðunum okkar og trú sem við erum alltaf að vanda okkur við að framfylgja. Svo þurfum við að byrja að slaka á og láta af þessu regluverki sem við höfum sett upp í kringum okkur.
Hvernig væri að taka ákvörðun um að njóta og hafa gaman í stað þess að vera með herðarnar upp að öxlum af stressi við að reyna að haka í öll boxin út frá því forriti sem við höfum hegðað okkur samkvæmt. Við fáum að trúa því sem við viljum og við getum ákveðið að endurforrita með nýjum skoðunum og trú. Ég hvet ykkur allar til að leyfa ykkur að efast um skoðanir ykkar og trú og taka nýjar ákvarðanir um hverju þið viljið trúa.