2 min read

Hæ Linda.  
Ég á það til að finna fyrir miklum bjúg þegar ég fer í flug, sérstaklega í andlitinu og á fótum. Kannt þú gott ráð til þess að losna við bjúginn? Þetta veldur mér miklum óþægindum og minnkar gleðina við það að ferðast. 
 
Sæl!
Ég og eflaust margar fleiri kannast við þetta vandamál varðandi bjúg og bólgur sem tengjast ferðalögum, þá sérstaklega í lengri flugferðum. Það eru nokkur atriði sem þú getur gert til þess að minnka eða jafnvel koma í veg fyrir bjúginn. 
- Notaðu svokallaða compression-sokka í fluginu. Þeir minnka bjúg. 
- Drekktu allavega 1 líter af vatni á meðan á flugi stendur. 
- Vertu duglega að hreyfa þig, meira að segja í sætinu þínu. Þú getur liðkað ökkla og tær, gert kálfaæfingar þar sem þú spennir og slakar á vöðvum þrátt fyrir þröngt sæti. Veldu þér sæti við ganginn vegna þess að þegar þú drekkur mikið vatn er gott að vera nærri salerni. Að standa upp og ganga á salernið er líka hreyfing. 
- Gefðu þér tíma fyrir ískalt fótabað, alveg upp að hnjám, þegar þú kemur á hótelið. 
- Farðu í hressandi morgunsturtu; Byrjaðu á volgu vatni og skiptu svo yfir í kalt vatn, eins kalt og þú þolir. Svissaðu fram og til baka, heit og kalt nokkrum sinnum og endaðu á ískaldri bunu. Þetta hleypir sogæðakerfinu í gang. 
- Byrjaðu morgnana án undantekningar á 1 lítra af vatni og einbeittu þér að því að drekka mikið vatn yfir daginn. Reyndu að velja mat í hollari kantinum - þó þú sért í fríi - og forðast djúpsteiktan mat og mikinn sykur. Annað sem getur valdið bjúg er prótínskortur þannig að vertu viss um að fá gott gæðaprótin sérstaklega sem fyrstu máltíð dagsins. 
- Magnesíum er líka mikilvægt og ef þú tekur ekki inn magnesíum reglulega er það eitthvað sem að þú gætir bætt við hjá þér.

Vona að þetta hjálpi.
Hlý kveðja,
Linda