2 min read
Viljastyrkur og sjálfsagi
Það þarf úthald til að gera breytingar á lífi sínu, því alvöru breytingar gerast ekki á einni nóttu. Þar spila bæði sjálfsagi og viljastyrkur stórt hlutverk. En hver er munurinn á viljastyrki og sjálfsaga?
Þegar þú gerir stórar breytingar á lífsstíl þínum þarftu að setja þér nýjar reglur. Í fyrstu þarftu að nota bæði viljastyrk og sjálfsstjórn til að byrja að gera það sem þú ætlar þér. Ef þú setur þá reglu að fara í ræktina klukkan fjögur þrisvar í viku á ákveðnum dögum þarftu að sækja í viljastyrkinn þinn til að byrja með. Viljastyrkur er eitthvað sem þú getur hæglega aukið í lífinu, svona eins og vöðvi sem þú getur æft og stækkað. En viljastyrkurinn er ekki endalaus. Þú kemst bara ákveðið langt á viljastyrknum og þegar hann þrýtur fellur þú fyrir freistingum á einhverjum tímapunkti ef þú stólar aðeins á hann.
Viljastyrkurinn kemur þér af stað og getur þanig hjálpað þér að byggja upp sjálfsaga. Eftir því sem þú gerir hlutina oftar eykst sjálfsaginn okkar og samningarviðræður í huganum minnka í hvert skipti. Frumheilinn hættir að sjá hag sinn í að reyna að fá þig ofan af því sem þú ert að fara að gera. Hann áttar sig á að hér er sjálfsöguð kona á ferðinni sem lætur ekkert stoppa sig.
Þegar þú hefur safnað nógu mörgum „sönnunum“ fyrir því að þú sért kona sem gerir það sem þú hefur ákveðið, eykst sjálfsaginn þinn. Þetta er gríðarlega mikilvægt ferli þegar kemur að því að ná öllum þeim markmiðum sem þú setur þér. Þess vegna hvet konurnar mínar til að vera alltaf með markmið, ekki bara til að fá einhverjar ákveðnar niðurstöður í lífið, heldur líka til að auka sjálfsaga og seiglu.Ef þú býrð yfir miklum sjálfsaga og seiglu í lífi þínu mun þér ganga betur í að skapa það draumalíf sem þú þráir og átt skilið.