2 min read

Nú er fyrsta ársfjórðungi 2024 lokið og ég hef vanið mig á að hafa alltaf einskonar uppgjör eftir hvern ársfjórðung.Ég byrjaði á að gera þetta í tengslum við fyrirtækjarekstur en þar sem ég hef lært í dag að hanna persónulegt líf mitt með því að gera plön fram í tímann og setja mér markmið, er það ekki síður mikilvægt að hafa samskonar uppgjör á því sviði á þessum tíma. 


Núna er sumsé tímabil til að skoða stöðuna. Hvar stend ég gagnvart markmiðum mínum?Er ég að heiðra þá vana og rútínur sem ég setti mér ásetning um að gera í byrjun árs? Ef ekki, af hverju? Hvað varð til þess að það datt út? Hvað hef ég heiðrað og innleitt? Hvernig er ég að fagna mér fyrir það? Hvað get ég byrjað að gera strax í dag til að endurskuldbinda mig og gera næsta ársfjórðung enn betri en þennan sem er að líða?

Svona hönnum við lífið og æfum okkur í að setja inn vana og rútínur sem gefa okkur gott líf. Vel lifað líf byggir á góðum vönum og rútínum. Við þurfum að vera tilbúnar að taka frá tíma í að skoða hvað er að ganga og hvað er ekki að ganga. Ef við gerum það ekki höldum við áfram að gera það sem er ekki að ganga í allt of langan tíma af því að það er orðið ómeðvitað. 
 
Ég vil hvetja þig, kæri lesandi, til að gefa þér tíma og fara yfir þessa fyrstu þrjá mánuði ársins og spyrja þig kröftugra spurninga. Hefur þessi ársfjórðungur gefið þér útkomu sem er að færa þig nær markmiðum þínum, eða jafnvel fjær þeim? Taktu kröftuga ákvörðun inní næsta ársfjórðung og leyfðu þér að læra af þeim síðasta.