2 min read
Ég er ein af þeim sem hef alltaf verið með nokkur aukakíló og gengið misvel að losna við þau. Þess vegna ákvað ég að prófa föstu með hléum eftir að hafa kynnt mér hana vel. Ég lærði um föstu með hléum í lífsþjálfunarnáminu mínu þegar ég sérmenntaði mig í lífsþjálfun með áherslu á þyngdartap.
Mér fannst það hljóma vel að hvíla líkamann, vera ekki síétandi allan daginn, en var nú hálf efins í byrjun um að þetta gengi hjá mér. Ég sem vaknaði svöng alla daga og gat ekki beðið eftir því að fá mér stóran og saðsamann morgunverð. Enda trúði ég því sem hafði verið sagt svo oft að morgunverður væri mikilvægasta máltíð dagsins. En sú tugga er væntanlega komin frá framleiðendum morgunkorna sem vilja að við kaupum vöruna þeirra.
Það tók á að fasta fyrstu dagana. Ég fann verulega fyrir svengd fyrstu morgnanna en það liðu ekki meira en tvær vikur þegar ég áttaði mig allt í einu á því að ég var hætt að finna fyrir svengd á morgnana. Þá var líkaminn orðinn fituaðlagaður, sem þýðir að hann er farinn að nýta eiginn fituforða sem orku. Einmitt það sem við viljum að hann geri þegar við erum að grennast. Markmiðið er að draga úr svengd svo þig hungri aðeins í það magn af mat sem líkaminn þinn þarfnast. Í dag er fasta með hléum orðinn partur af mínum lífsstíl. Ég borða fyrstu máltíð dagsins um hádegi og finn ekki fyrir svengd fyrr en þá. Það er ótrúlegt frelsi sem fylgir því að fasta og mér líður miklu betur.
Þegar áköf löngun eða tilfinning hellist yfir þig er þrennt sem þú getur gert: Þú getur staðist hana, forðast hana eða gengist við henni og unnið úr henni. Þegar við erum að létta okkur verðum við að læra hvernig við tökum á móti tilfinningum okkar og hvernig við vinnum úr þeim. Það er misskilningur að halda að tilfinningar eigi alltaf að vera góðar og þægilegar, en það er einmitt sú trú sem viðheldur vanlíðan okkar. Dálítið kaldhæðnislegt.
Þegar við lærum hvernig við getum unnið úr tilfinningum okkar hættum við að nota mat til að flýja ákveðna líðan. Við verðum síður hrædd við tilfinningar okkar. Þegar við hræðumst ekki að finna fyrir tilfinningum fyllumst við hugrekki. En það krefst æfingar að hvíla í núinu með tilfinningum okkar og löngunum. Það að leyfa löngunum að hellast yfir okkur og taka eftir þeim er til að byrja með fyrsta skrefið í áttina að því að geta unnið úr tilfinningunni.
P.s. Nú er lokað fyrir skráningar í LMLP prógrammið en þú getur skráð þig á BIÐLISTA og ég læt þig vita fyrst þegar opnar næst. Smelltu hér.