2 min read
Þú færð ekki það sem þú vilt, þú færð það sem þú sættir þig við!
Það er mjög mikilvægt að átta sig á sannleikanum í þessu. Ef þú spáir virkilega í þetta þá er allt sem þú hefur í lífinu þínu í dag sem þér líkar ekki við tilkomið af því að þú hefur lært að sætta þig við eitthvað sem þú vilt ekki. Alveg sama hvað það er.
Eitt af því sem er okkur mjög tamt og við höfum vanið okkur á er að kenna öðrum og öðru um allt í lífinu sem við erum ósáttar við. Við tökum ekki ábyrgð og skellum skuldinni á aðra. Það er verndandi á ákveðinn hátt, frýjar okkur ábyrgð og við þurfum ekki að gera eitthvað sem væri erfitt. Af því að ef lífið okkar er öðrum að kenna þá hljóta aðrir að þurfa að breytast til að það geti breyst! Og þetta er vondur staður að vera á. Þetta tekur allt vald frá okkur og við förum að upplifa okkur veikar og máttlausar, svona eins og viljalaust verkfæri í eigin lífi.
Til að gera breytingar í lífinu mögulegar þurfum við að breyta þessu og taka ábyrgð. Og það fyrsta sem við þurfum að læra er að hugsanir okkar framkalla tilfinningar okkar. Það er ekki öðrum og öðru að kenna hvernig okkur líður. Við hugsum hugsanir sem fá okkur til að líða á einhvern hátt og við fáum að velja hvað við hugsum. Krafturinn í þessari vitneskju er svo frelsandi.
Við þurfum að vita hvað við viljum, og skilgreina hvað við viljum, og hætta að sætta okkur við hluti sem ekki samræmast því. Við þurfum að taka stjórnina i eigin lífi og læra að hafa stjórn á hugsunum okkar og þar af leiðandi tilfinningum okkar líka. Og ekki síst þurfum við að átta okkur á að við getum upplifað allar tilfinningar.
Við skulum taka ákvörðun um að hætta að vera fórnarlömb í eigin lífi og skilja að til að gera breytingar í lífinu þurfum við að breytast. Við þurfum að uppfæra sjálfsmyndina og hækka viðmiðin. Sem þýðir að hætta að sætta okkur við eitthvað sem hefur haldið okkur í óbreyttu ástandi.
Hvaða viðmið ertu að sætta þig við í dag?
Hvaða viðmið þarftu að hækka til að gera þær breytingar í lífið sem þú vilt? Ég hvet þig, kæri lesandi til að velta þessu fyrir þér og byrja að hækka viðmiðin þín og hætta að sætta þig bara við lífið þitt. Þetta er þitt líf og þitt til að njóta.