1 min read
Ég er kona sem fer á eftir draumum mínum. Ég hef alltaf haft þetta innra afl sem hvetur mig áfram. Ég er kappsöm og metnaðarfull kona. Ég lít á mig sem konu sem mætir storminum og heldur alltaf áfram. Lífið kemur með sínar árstíðir og ég er tilbúin í allt sem því fylgir.
Það eru alltaf tvö öfl að baki öllum okkar ákvörðunum. Annað hvort erum við að sækja í nautn eða forðast hættur og ónot.Þegar við förum á eftir draumunum okkar stöndum við frammi fyrir báðum öflunum. Við erum að sækja í góðu tilfinningarnar sem fylgja því að lifa draumalífinu en við þurfum að mæta óttanum okkar og vera tilbúnar að yfirstíga hindranir til að komast þangað.
Þegar ég lít til baka og minnist þess tíma áður en ég fór af stað með Prógrammið mitt(Prógrammið með Lindu Pé) sé ég allan óttann sem ég þurfti að stíga inn í til að gera þennan draum minn að veruleika. Ég er ekkert öðruvísi en aðrir. Allar mínar hamlandi hugsanir vildu standa í vegi mínum. Hugsanir sem sögðu mér hluti á borð við að engar íslenskar konur væru tilbúnar í þessa vinnu, þetta yrði allt of mikil vinna fyrir mig, ég gæti þetta ekki og hefði ekki það sem þyrfti. Allar þessar hugsanir gerðu það eitt að draga úr mér og auka sjálfsefann og óttann.
En af því að ég er lífsþjálfi og hef lært að stjórna hugsunum mínum og upplifa tilfinningar mínar þá læt ég hugsanir mínar ekki stoppa mig. Og það vil ég kenna sem flestum konum að gera. Af því að lífið byrjar hinum megin við óttann og sjálfsefann.